Sjálfbærni
Leiðarljós
Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem „Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum“. -Brundtland skýrslan, 1987.
Umhverfisvernd og vitund um sjálfbæra framtíð er leiðarljós sem við viljum fylgja.
Samfélagsleg ábyrgð
Við gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar í tengslum við mannréttindi og siðferðislega hegðun fyrirtækja. Við erum þekkingarfyrirtæki og ætlum að leggja okkar af mörkum til aukinnar sjálfbærni í íslensku samfélagi.
Heilsa og velferð – heilnæmar og vistvænar byggingar
Með heilnæmum og vistvænum byggingum viljum við auka gæði bygginga, skapa öruggt og gott umhverfi og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Við leggjum áherslu á heilsuvernd, vistvæn byggingarefni, hagkvæma nýtingu auðlinda og að í byggingum okkar sé ávallt tryggt aðgengi fyrir alla. Með skýrum markmiðum um vistvæna hugsun viljum við stuðla að góðri heilsu og aukinni velferð starfsfólks okkar og leigutaka.
Markmið:
• Byggingar okkar séu endingargóðar og sveigjanlegar, rými séu nýtt á hagkvæman hátt og tryggt sé heilnæmt inniloft, hagkvæm lýsing og góð hljóðvist.
• Gæðastjórnun sé tryggð í byggingarferli og viðhaldsmálum mannvirkja.
• Byggt sé úr umhverfisvottuðu byggingarefni. Orka, vatn og aðrar auðlindir séu vel nýttar, varmi endurnýttur þar sem hægt er, lýsing sé orkusparandi. Sem minnstur úrgangur verði til á byggingartíma og í rekstri mannvirkja til þess að draga úr kolefnisspori bygginga, m.a. með markvissri endurnýtingu efna og flokkun sorps.
• Stuðlað sé að vistvænum og hagkvæmum rekstri allan líftíma byggingar.
Haldið verði utan um hönnun og framkvæmdir við byggingar okkar þannig að þær geti staðist umhverfisvottun, t.d. BREEAM vottun.
Vistvænn ferðamáti - samgöngumarkmið
Við viljum stuðla að aukinni notkun vistvæns ferðamáta á meðal starfsfólks okkar og leigutaka. Vistvænum ferðamáta fylgir aukin umhverfisvitund, minni mengun, sparnaður, aukin hreyfing og bætt heilsa fólks. Með sýnilegum samgöngumarkmiðum um vistvænan ferðamáta viljum við stuðla að fræðslu um vistvænar samgöngur og hvetja til notkunar þeirra með markvissum hætti.
-Staðfest af stjórn Íþöku ehf., 4. júní 2020